Kæru félagar.
Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári. „Megir þú lifa áhugaverða tíma“ er kínverskt hnjóðsyrði eða bölvun en þessi tímar sem við núna upplifum hafa frekar þjappað okkur saman og leyft okkur að leita inn á við. Að kynnast Íslandi upp á nýtt og fyrir okkur kylfinga að láta duga að iðka golfíþróttina í sínum heimaklúbb og sleppa öllum ævintýrum í útlöndum.
Á síðasta aðalfundi varð nokkur endurnýjun á stjórn en þeir Ægir Vopni Ármannsson og Jón Sigurður Garðarsson komu nýir inn. Er ég mjög þakklátur þeim hópi sem starfað hefur í stjórninni á starfsárinu og bergmálar skoðanir ykkar félagsmanna við ákvarðanatöku. Fastráðnir starfsmenn voru allir þeir sömu og öll kunnuglegu andlitin mættu okkur þegar við hófum golfleik síðastliðið vor. Langvinsælasti starfsmaður okkar, hann Baldur, hélt upp á sextugsafmælið sitt á árinu og bauð hann vinum og samstarfsmönnum að hitta sig á 5. braut í lok tímabilsins. Ég leyfi mér að mæla fyrir munn okkar allra og óska honum aftur til hamingju með áfangann og við hlökkum til að sjá hann á næsta ári.
Skráðir félagsmenn í Oddi voru í lok starfsársins 1.521. Af þeim eru 1.205 með fulla félagsaðild en 316 félagar eru með Ljúflingsaðild. Oddur heldur sínu sæti sem þriðji stærsti klúbbur landsins innan vébanda GSÍ en líklegt er að við missum það sæti á næsta ári. Fjölgun í GO er 3,7% á sama tíma og félögum í golfklúbbum fjölgar um 11%. Ástæða þess að við fylgjum ekki fjölgun á landsvísu er sú að á síðastliðnu sumri var félagaskránni lokað fyrir nýjum meðlimum. Við munum ekki fjölga í klúbbnum á næsta ári, heldur einungis halda í horfinu enda ræður svæðið okkar ekki við meiri fjölda. Á það ekki einungis við um Urriðavöll heldur einnig Ljúfling en þar hafa seldir rástímar næstum þrefaldast á tveimur árum. En ef við skoðum fjölda leikinna hringja á hvern félagsmann þá hefur þeim fjölgað um 13%.
Kvennanefnd og Félagsnefnd fá sérstakar þakkir fyrir þeirra störf. Klúbburinn er nú í viðræðum við aðila um aðgang að golfhermum í vetur sem tryggir okkur aðgang á lægra gjaldi en almennt verður í boði. Konur í golfklúbbnum Oddi eru nú 623 talsins eða 41 % félagsmanna og hefur það hlutfall haldist nánast óbreytt nú í nokkur ár. Hlutfall kvenna á landsvísu er 32% þannig að við erum langt yfir meðaltali eins og undanfarin ár.
Það voru 256 keppendur sem tóku þátt í Meistaramóti ársins sem er nokkur aukning frá fyrra ári. Við fengum nýjan klúbbmeistara karla á árinu en Skúli Ágúst Arnarson hafði betur gegn Rögnvaldi ríkjandi meistara en Hrafnhildur Guðjónsdóttir varði sinn titil örugglega. Golfklúbburinn Oddur hélt að venju úti keppnissveitum í öllum eldri flokkum á Íslandsmóti golfklúbba. Á heimavelli lék kvennasveit GO og hafnaði í 8. sæti og leikur því í 2. deild að ári, karlasveit GO stóð sig vel í 2. deild karla og þeir héldu sínu sæti í deildinni. Eldri keppnissveitirnar stóðu sig einnig vel og þar náði eldri sveit kvenna sínum besta árangri en þær höfnuðu í 4. sæti í 1. deild. Báðar eldri sveitir karla og kvenna leika því áfram í 1. deild á næsta ári.
Enn eitt metið var slegið í fjölda þeirra sem sóttu sumarnámskeið hjá Phil og Rögga sem að venju sáu um að halda sveiflunni okkar í góðum gír og að slæsið næði ekki yfirhöndinni.
Vikurnar fyrir opnun golfvallarins var starfseminni veruleg takmörk sett vegna sóttvarnaraðgerða og reyndist nauðsynlegt að hægja á allri starfsemi og seinka undirbúningi opnunar en á venjulegu ári. Á árinu voru 18 færri golfdagar en á síðasta ári og fjöldi rástíma í boði því færri en síðasta ár. Þá var æfingasvæði okkar lokað með tilheyrandi tekjusamdrætti en þegar okkur var leyft að opna, tóku kylfingar verulega við sér og má fullyrða að þið hafið aldrei verið duglegri að æfa sveifluna og svo mikið að stundum var biðröð til að komast að.
Við urðum að bregðast við mikilli ásókn með því að fjölga rástímum og lengja þann tíma sem hægt var að bóka rástíma. Þá var félagaskrá klúbbsins lokað á miðju sumri enda ber svæðið ekki orðið meiri umferð. Með þessum aðgerðum voru 36.774 rástímar spilaðir á Urriðavelli árið 2020, og er það aukning um 19% frá 2019 og 57% frá 2018. Þá hefur sama aukning orðið á Ljúfling en við áætlum að þar hafi um 11.500 hringir verið leiknir. Það má því leiða að því líkum að hér á okkar starfssvæði hafi verið gengnir um 250 þúsund kílómetrar eða um sex sinnum í kringum hnöttinn. Félagsmenn í spiluðu líka tvöfalt meira á vinavöllum miðað við fyrra ár eða tæplega 3.500 Það er því ekki nema von að þið hafið fundið fyrir aukinni umferð og erfiðleikum við að finna rástíma við hæfi. En meira um það síðar.
Á árinu tóku golfklúbbar á Íslandi upp nýtt kerfi, Golfbox, til rástímaskráningar. En þetta kerfi gerir svo mikið meira fyrir starfsmenn okkar til reksturs klúbbsins og við erum rétt að byrja að læra á. Þannig var það einfalt að breyta í rástíma á 9 mínútna fresti og bæta við rástímum sem hefði reynst okkur erfitt í gamla kerfinu. Allir nýttu því sumarið til þess að læra á kerfið sem lofar mjög góðu þó að alltaf sé hægt að gera eitthvað betur. Á næsta starfsári er stefnan að nýta frekar möguleika kerfisins bæði til eftirlits og til að gæta þess að sem flestir félagsmenn hafi aðgang að rástímum. Þá var einnig farin ný leið til að innheimta félagsgjaldið sem hefur tryggt okkur mun betri innheimtu og léttir verulega á starfsmönnum við utanumhald.
Á liðnu ári var áfram unnið að fegrun vallarins með endurbótum á gönguleiðum og glompu á 8. braut ásamt nýjum starfskröftum, sláttuvélmenna á fyrstu og þriðju braut. Hafa þeir mælst vel fyrir og verður haldið áfram á þessari braut með framkvæmdum sem styðja við aukna notkun þessara sænsku sláttumanna. Tvær framkvæmdir verða sýnilegar á næsta ári, nokkuð magn af jarðvegi verður flutt í svæðið fyrir neðan 13. braut og þá hefst framkvæmd á nýjum fremri teigum á 14. braut sem vonandi eiga eftir að gleðja þá sem kvartað hafa undan hversu löng sú braut er af fremsta teig.
Fyrir ári síðan kynntum við fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir taprekstri á klúbbnum enda erfitt að sjá fyrir algert ferðabann og sóttvarnaraðgerðir. Fjárhagsár golfklúbbsins er frá 1. nóvember til 31. október og þrátt fyrir að enn hafi orðið samdráttur í tekjum af þjónustu við fyrirtæki, mótum og seldum hringjum á Urriðavelli, þá varð enn eitt árið veruleg aukning í seldum hringjum á Ljúfling. Þar hafa tekjurnar nánast þrefaldast á tveimur árum. Tekjur okkar af þessum dýrgrip eru nú um 10% af heildartekjum og hærri en vegna samstarfssamninga fyrirtækja og seldum hringjum á Urriðavelli til samans. Við höldum áfram að byggja upp efnahagsreikning félagsins og kláruðum að greiða upp öll lán og eigum orðið innistæðu á reikningum í lok starfsárs sem hefur ekki gerst áður. Framkvæmdastjóri mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum.
Á haustdögum var gengið frá nýjum samningi við leigusala okkar, Golfklúbb Oddfellowa til fimm ára sem gerir ráð fyrir 100 milljón króna fjárfestingu í búnaði og því að bæta golfvöllinn. Oddfellow hreyfingin er okkar stærsti viðskiptavinur í keyptum golfhringjum en í þessum samningi náum við betur utan um samstarfið, til að tryggja að álagið verði jafnara öllum til hagsbóta. Það er ánægjulegt að við náðum saman um þetta verkefni sem snýr að endurnýjun búnaðar enda mörg þau tæki sem við notum í dag til umhirðu vallarins frá síðustu öld. Þá hefur sú stefna verið mörkuð að kaupa sem flest tæki sem notast við rafmagn og því bæði umhverfisvænni og ódýrari í rekstri. Það er þó sá ljóður á, að enn erum við að greiða leigu fyrir afnot af svæðinu um 13,5 milljónir á ári til landeiganda, án þess að sveitarfélagið aðstoði okkur við það. Golfklúbburinn Oddur er eina íþróttarfélagið í Garðabæ sem þarf þess. Þrátt fyrir ítrekuð samskipti við stjórnendur bæjarfélagsins þá er lítil von til þess að það breytist nema þið félagsmenn komið í lið með okkur sem erum í forsvari fyrir klúbbinn með þrýstingi á bæjarfulltrúa og forsvarsmenn bæjarins.
Líkt og komið hefur fram og þið hafið upplifað er aðstaða klúbbsins að öllu leyti orðin of lítil en á því gæti orðið breyting á næstu árum. Landeigandi Urriðadala, Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow hóf núna í nóvember að kynna nýtt skipulag svæðisins sunnan Flóttamannaleiðar með útivist fyrir almenning að leiðarljósi. Verði þetta skipulag samþykkt opnast tækifæri til að stækka svæðið til golfiðkunnar og stækka völlinn í 27 holur og að opna á sama tíma svæðið fyrir umferð allra á öruggan máta þannig að mörg mismunandi útivist geti þrifist á sama tíma. Reyndar má segja að framkvæmdir við stækkun vallarins hefjast nú í vetur því gert er ráð fyrir nýrri holu á svæðinu fyrir neðan 13. braut sem byrjað verður að vinna í vetur. Skipulagsferlið er nú í vinnslu hjá landeiganda og Garðabæ en í vetur verður það kynnt almenningi og mun golfklúbburinn halda sérstaka kynningu með Styrktar- og líknarsjóði Oddfellow fyrir félagsmenn. Það er mikilvægt að styðja við bakið á landeiganda svo að af þessari stækkun verði, þurfið þið félagar í Oddi að láta heyra í ykkur við bæjaryfirvöld því við getum verið viss um að þeir sem eru á móti muni mótmæla.
Ég þakka starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Við færum þeim samstarfsaðilum sem lögðu starfseminni lið á liðnu ári sérstakar þakkir. Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum og Sigurði Inga Halldórssyni áheyrnarfulltrúa fyrir samstarfið á árinu. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér.
Stjórn Odds óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.